Viðskipti innlent

Finnur Sveinbjörnsson: Bönkum mun fækka í tvo

Finnur Sveinbjörnsson á skrifstofu sinni. Mynd/ Valli.
Finnur Sveinbjörnsson á skrifstofu sinni. Mynd/ Valli.

Bankastjóri Arion Banka telur óhjákvæmilegt að bönkum á Íslandi fækki niður í tvo. "Það er klárlega offramboð á bankaþjónustu hér á landi, svona ef maður lítur á alþjóðlega mælikvarða á borð við fjölda íbúa á hvert útibú, fjölda bankastarfsmanna á hverja þúsund íbúa og þar fram eftir götunum. Allir mælikvarðar sýna sama offramboðið," sagði Finnur í viðtali við Fréttablaðið í dag.

Hann telur fuður hátt hlutfall bankaútibúa hér á landi og bendir á að þannig hafi Skagafjörður af einhverjum sögulegum ástæðum verið með fjögur útibú og afgreiðslustaði frá Kaupþingi. Töluverð hagræðing hefur átt sér stað hjá bankanum eftir hrun sem hefur meðal annars falið í sér lokun útibúa víðsvegar um landið.

Hagræðingar bankans í útibúanetinu segir Finnur tengjast offramboði bankaþjónustu í landinu og telur hann einboðið að bönkum muni fækka. "Núna veita fjórar einingar þjónustu um allt land, Arion banki, Íslandsbanki, sparisjóðakerfið og Landsbankinn. Ég hef sagt að hefðbundin bankaþjónusta þurfi bara tvær einingar," segir hann, en bætir um leið við að fleiri gæti þó þurft til að starfrækja gjaldeyris- og millibankamarkað. En þar gæti Seðlabankinn líka komið inn í.

"Við þurfum hins vegar ekki nema tvo banka sem veita alhliða bankaþjónustu um allt land. Ég er þó ekkert viss um að samkeppnisyfirvöld myndu kyngja því, en kannski væri rétt að breyta bara löggjöfinni til að leyfa þetta." Finnur segist þó hvorki geta sagt fyrir um hvenær eða í hvaða áföngum þessi breyting á bankalandslaginu muni eiga sér stað. "En þetta gerist á endanum, það er ég viss um."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×