Innlent

Athvarf fyrir sextíu konur

Mæðrahúsið.
Þar geta allt að 60 konur verið á sama tíma en húsið er hugsað sem aðstaða fyrir konur sem bíða fæðingar en þær þurftu áður að hafast við úti.
Mæðrahúsið. Þar geta allt að 60 konur verið á sama tíma en húsið er hugsað sem aðstaða fyrir konur sem bíða fæðingar en þær þurftu áður að hafast við úti.

Hjálparstarf Mæðrahús sem reist var að frumkvæði Íslendinga var formlega opnað í bænum Engela í Namibíu í vikunni. Forsetafrú Namibíu, frú Penehupifo Pohamba, opnaði húsið að viðstöddu fjölmenni, en hún var verndari söfnunar til byggingar hússins.

Saga hússins á rætur sínar að rekja til þess er Vilhjálmur Wiium, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Namibíu, ók fram á konur sem biðu fæðingar á spítalanum í Engela í Ohangwena-sýslu nyrst í Namibíu. Spítalinn er sá eini í sýslunni en í henni búa 230 þúsund manns og þangað koma mæður hvaðanæva að. Einkum sækjast konur sem óttast vandamál við fæðingu eftir að fæða á spítalanum. Ekkert pláss var hins vegar til þess að taka konurnar inn fyrr en hríðir hófust. Höfðust þungaðar konur því við undir tveimur trjám í nágrenni spítalans, elduðu sér mat á hlóðum og sváfu úti, oft í talsverðum kulda.

Við svo búið mátti ekki una og eftir umræður og bollaleggingar var hafist handa við að safna fé til húsbyggingar.

Margir lögðu hönd á plóginn við að reisa húsið, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu til að mynda. Íslendingar lögðu til um þriðjung af heildarkostnaði, Reykjanesbær stóð fyrir fjáröflun á Ljósanótt árið 2007, en þar söfnuðust 300.000 krónur sem runnu í byggingu mæðrahússins. Þróunarsamvinnustofnun Íslands lagði einnig til fé.

Talsverðar tafir urðu á byggingu hússins, meðal annars vegna flóða. En það reis að lokum og er mikil ánægja með það í héraðinu samkvæmt upplýsingum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Í húsinu eru átta gististofur sem geta hýsta sextíu konur samtímis. Þar er eldunaraðstaða sem konurnar geta nýtt sér og einnig er góð hreinlætisaðstaða með sturtum. Í húsinu er aðstaða til að veita mæðrum ráðgjöf um fæðingar og umönnun barna. sigridur@frettabladid.is

Lóðargefandinn Háöldruð kona frá svæðinu gaf lóðina sem Mæðraheimilið stendur á.
Söfnunarfé afhent Íslendingar borguðu þriðjunginn af húsinu.


Frú Pohamb Forsetafrú landsins þakkaði Íslendingum fyrir framlag sitt til hússins í ræðu er húsið var vígt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×