Innlent

Hvatning til að kjósa konur virkar vel í finnskum persónukosningum

1. maí 1973. Kröfuganga á baráttudegi verkalýðsins fer um Rauðarárstíginn. Nokkur árangur hefur náðst í jafnréttisbaráttu í skandinavískum stjórnmálum, en minni í atvinnulífinu. 
Mynd/ljósmyndasafn reykjavíkur
1. maí 1973. Kröfuganga á baráttudegi verkalýðsins fer um Rauðarárstíginn. Nokkur árangur hefur náðst í jafnréttisbaráttu í skandinavískum stjórnmálum, en minni í atvinnulífinu. Mynd/ljósmyndasafn reykjavíkur

Það hefur gefið góða raun að hvetja fólk til að kjósa konur í persónukosningum í Finnlandi. Segja má að á þjóðþingi þar hafi kynjajafnvægi verið náð, eins og á Íslandi og í Svíþjóð. Svo segir Norræna kvenna- og kynjarannsóknastofnunin, sem nýverið kannaði „kyn og völd í stjórnmálum og atvinnulífi“, að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar.

Stofnunin kveður atvinnulíf Norðurlandanna vera eftirbát stjórnmálalífsins að þessu leyti. Það sé enn sem fyrr vígi karla, með örfáum undantekningum. Hlutur kvenna í stjórnum einkafyrirtækja er á bilinu sjö til 36 prósent, en þyrfti að vera yfir fjörutíu prósent til að viðunandi væri.

Noregur sker sig úr því þar hafa verið settir kynjakvótar fyrir stjórnir fyrirtækja í kauphöllinni í Ósló. Þar hefur fjöldi kvenna í stjórnum aukist úr níu prósentum árið 2004 í 26 prósent 2009.

Í Svíþjóð hefur hlutur kvenna í einkafyrirtækjum einnig aukist, eftir að kauphöllin þar setti reglur um jöfn hlutföll kynja.

Hlutur kvenna á þingi hefur aukist í öllum löndunum síðan á miðjum 10. áratugnum, nema í Noregi. Á þessum tíma jókst hann skarpast á Íslandi, úr 25 prósentum í 43. Kynjarannsóknastofnunin segir að kynjakvótar á framboðslista í Noregi og Svíþjóð hafi aukið þátttöku kvenna í stjórnmálum. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×