Viðskipti innlent

Engar viðskiptaforsendur fyrir raforkuafslætti til garðyrkju

Undanfarna daga hefur víða heyrst krafa um að garðyrkjubændur fái keypta raforku á sama verði og stóriðjan. Engar viðskiptalegar forsendur eru fyrir þessum algenga samanburði við stóriðjuna, sem heyrist svo víða annars staðar, að mati Samorku.

Í tilkynningu frá Samorku um málið segir að garðyrkjubændur séu góðir viðskiptavinir orkufyrirtækja. Engu að síður er þessi samanburður þannig að sæmilega stór garðyrkjubóndi kaupir ekki einn þúsundasta af því orkumagni sem meðalstórt álver kaupir.

Þá kaupir stóriðjan raforkuna í 24 klukkustundir á sólarhring og 365 daga á ári, alls um 8.760 klukkustundir á ári, skuldbundið til margra ára og jafnvel til áratuga. Garðyrkjubændur undirgangast engar slíkar skuldbindingar. Þeir nota gjarnan raforku til lýsingar í um 5.500 klukkustundir á ári.

Raforku þarf að nota jafnóðum og hún er framleidd. Þess vegna eru mikil verðmæti í þessum stóru sölusamningum við stóriðjufyrirtækin. Ennfremur ber að nefna að dreifingin er gjarnan um þriðjungur af raforkuverði til fyrirtækja og heimila. Stóriðjan tekur hins vegar við orkunni beint af flutningskerfinu og greiðir því sjálf dreifingarkostnaðinn.

Garðyrkjubændur hafa aftur á móti notið niðurgreiðslu úr ríkissjóði á dreifingunni, en nýleg ákvörðun um lækkun þeirrar niðurgreiðslu hefur verið gagnrýnd af þeirra hálfu. Umræðan um lægra raforkuverð til garðyrkjubænda er fyrst og fremst umræða um frekari og/eða áframhaldandi niðurgreiðslur á raforku til þeirra, úr ríkissjóði, og þannig hefur hún enda verið ágætlega sett fram af hálfu talsmanna garðyrkjubænda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×