Viðskipti innlent

Fjórfalt fleiri fyrirtæki í vanda en fyrir bankahrunið

Fjórfalt fleiri fyrirtæki eru nú í vanda en fyrir bankahrunið ef miðað er við upplýsingar frá Creditinfo um greiðsluhegðun fyrirtækja.

Sífellt fleiri fyrirtæki eiga á brattann að sækja, samkvæmt mælingum Creditinfo á greiðsluhegðun fyrirtækja. Rúmlega tíu þúsund fyrirtæki eru í þremur mestu áhættuflokkunum um gjaldþrot samanborið við 2.600 fyrir bankahrun. Alls eru fyrirtæki í þremur mestu áhættuhópunum 10.242 talsins. Helsta skýringin er snarpur samdráttur í sölu á vöru og þjónustu.

Þá eru 60% gisti- og veitingastaða í þessum hópi auk þess sem rekstur landbúnaðar- og sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið að þyngjast. Samkvæmt greiningu Creditinfo eiga 3.273 fyrirtæki í hættu á að fara í gjaldþrot á næstu tólf mánuðum. Þessi tala stóð í rúmlega 3.500 í upphafi árs. Ástæða lækkunarinnar er ekki batnandi afkoma fyrirtækja, heldur hafa mörg fyrirtæki í upphaflegu tölunum farið á hausinn.

Hagfræðingar sem fréttastofa hefur rætt við í morgun eru sammála um að gríðarlega mikilvægt sé að lækka stýrivexti enn frekar og það hratt, þá virðast allir á einu máli um að krónan sé dauð og að ráðamenn þjóðarinnar verði að finna nýjan gjaldmiðil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×