Viðskipti innlent

Nauðasamningur Teymis samþykktur

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis.
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis. Mynd/Vilhelm
Kröfuhafar Teymis samþykktu á fundi sínum í dag, að breyta hluta af kröfum sínum í hlutafé í Teymi. Með þessum aðgerðum munu kröfuhafar Teymis eignast félagið að fullu ásamt dótturfélögum þess. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Teymi sendi frá sér í dag.

Fjárhagslegri endurskipulagningu Teymis er lokið og óvissunni um framtíð félagsins hefur því verið eytt.

Mikil samstaða var meðal kröfuhafa um að hag þeirra væri best borgið með samþykkt nauðasamningsins. Einungis einn aðili greiddi ekki atkvæði með samningnum, þ.e. Líftryggingafélag Íslands hf., sem er dótturfélag Exista hf., en þeir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Teymi mun nú óska formlegrar staðfestingar Héraðsdóms Reykjavíkur líkt og lög gera ráð fyrir. Í kjölfarið verður boðað til hluthafafundar þar sem hið nýja hlutafé verður staðfest og ný stjórn kosin fyrir félagið. Gert er ráð fyrir að nýir eigendur taki formlega við félaginu eigi síðar en í ágúst næstkomandi.

Teymi er eignarhaldsfélag á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Meðal fyrirtækja í eigu Teymis má nefna Vodafone, Tal, Kögun, Skýrr og EJS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×