Viðskipti innlent

Evran komin í 190 kr. á aflandsmarkaði

Þó nokkur viðskipti hafa verið með íslenskar krónur á aflandsmakaði undanfarið og hefur veltan síðustu tvo daga að meðaltali verið um 2 milljarðar kr. á dag. Nú fæst evran á 190 íslenskar krónur, skv. viðskiptakerfi Reuters og hefur verðið ekki verið svo lágt síðan fyrir fall viðskiptabankanna fyrir réttu ári síðan.

Hagfræðideild Landsbankans greinir frá þessu í Hagsjá sinni. Þar segir að föstudaginn 3. október fyrir rétt tæpu ári var fékkst evran á 162,2 kr. á aflandsmarkaði, samanborið við 155,1 kr. á innanlandsmarkaði. En eftir þá afdrifaríku helgi sem á eftir kom þurfti að reiða fram 229 kr. fyrir evruna á aflandsmarkaði. Hæst fór verðið í 340 kr. á evruna skömmu eftir hrunið en síðan þá hefur það sveiflast umtalsvert.

Í vor styrktist krónan svo nokkuð á aflandsmarkaði og var nokkuð stöðug í allt sumar og var þá verðið á evrunni á bilinu 210-220 kr. síðustu daga hefur krónan svo styrkst umtalsvert, eins og áður sagði.

Í dag er munurinn á gengi á aflandsmarkaði og innlendum gjaldeyrismarkaði rétt tæpar 10 krónur á evruna og varð hann raunar um fimm krónur á tímabili. Því er ljóst að mikið hefur dregið úr ávinningi viðskipta með gjaldeyri fram hjá gjaldeyrishöftunum.

Þess má og geta að greining Íslandsbanka var með frétt á svipuðum nótum í gærmorgun en þar kom fram að verðið á evrunni væri komið niður í 200 kr. á aflandsmarkaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×