Viðskipti innlent

Það hefði getað farið verr hjá Árnastofnun

Árnastofnun hefur yfir að ráða tveimur sjóðum sem ætlaðir eru til bókakaupa. Þetta eru Bókasjóður Þorsteins M. Jónssonar og Sigurjónu Jakobsdóttur og Minningarsjóður Birgit Baldwin. Í ársskýrslu Árnastofnunar kemur fram að við hrun bankakerfisins í október hafi þessir sjóðir beðið nokkra hnekki en þó hefði getað farið verr. Þrátt fyrir að stór hluti sjóðanna hafi verið varðveittir í peningamarkaðssjóði þá voru þeir í sjóði Kaupþings sem rýrnaði minnst af þeim peningamarkaðssjóðum sem starfræktir voru fyrir fallið.

Í árslok 2008 var eign Þorsteinssjóðs 21,4 milljónir en í Minningarsjóði Brigit Baldwin voru 35,5 milljónir. Á árinu greiddu sjóðirnir 2,8 milljónir til bókakaupa en þeir rýrnuðu um 6,6 milljónir að nafnverði eða um rösklega 10 prósent.

„Það hefði getað farið verr," segja höfundar ársskýrslunnar og vitna í karlinn sem „datt niður stiga með bennivínsflösku í hendinni og handleggsbrotnaði, en flaskan var heil."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×