Viðskipti innlent

Fjórðungi sagt upp hjá Teris

Upplýsingatæknifyrirtækið Teris hefur sagt upp fjórðungi starfsmanna. Teris missti þrjá stóra viðskiptavini.
Upplýsingatæknifyrirtækið Teris hefur sagt upp fjórðungi starfsmanna. Teris missti þrjá stóra viðskiptavini.

Upplýsingatæknifyrirtækið Teris hefur sagt upp 34 starfsmönnum, eða um fjórðungi starfsmanna sinna. Uppsagnirnar koma niður á öllum þáttum starfseminnar og hafa sumir starfsmannanna unnið lengi hjá fyrirtækinu. Allir starfsmennirnir hafa þegar hætt störfum.

Teris sinnir upplýsingatækniþjónustu og sérhæfir sig í þjónustu við fjármálafyrirtæki. Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri Teris, segir að Teris hafi með uppsögnunum nú verið að bregðast við hremmingum á markaðnum. Allir viðskiptavinir fyrirtækisins séu að draga saman seglin og skera niður kostnað,

„Við höfum reyndar verið í aðhaldsaðgerðum frá því í mars í fyrra. Við sögðum upp fimmtán starfsmönnum í október þegar bankahrunið varð og fimm starfsmönnum í september í hugbúnaðarfyrirtæki sem við áttum," segir Sæmundur.

Allir sparisjóðir í landinu eru viðskiptavinir Teris og sér fyrirtækið um alla upplýsingatækniþjónustu fyrir þá. SPRON og Sparisjóðabankinn féllu í mars og tveimur vikum síðar yfirtók nýja Kaupþing Sparisjóð Mýrasýslu. Við misstum þrjá stóra viðskiptavini á tveimur vikum. Óhjákvæmilegt var að bregðast við því og því miður urðum við að segja upp svona stórum hópi," segir hann.

Starfsmennirnir eru flestir með þriggja mánaða uppsagnarfrest en nokkrir eru með sex mánaða uppsagnarfrest. Þeir hafa allir hætt störfum. „Við urðum að ganga svo langt að segja upp fólki sem er með mjög mikla starfsreynslu," segir hann.

Um 140 starfsmenn voru hjá Teris áður en uppsagnir komu til framkvæmda. - ghs










Fleiri fréttir

Sjá meira


×