Viðskipti innlent

Kaupin á Spron í uppnámi vegna Nýja Kaupþings

Margeir Pétursson er stjórnarformaður MP Banka.
Margeir Pétursson er stjórnarformaður MP Banka.
Samkomulagið um kaup MP banka á útibúaneti Spron fyrir 800 milljónir króna er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið hefur þegar veitt MP banka undanþágu til að hefja starfsemi en samþykki Fjármálaeftirlitsins liggur ekki fyrir. Því varð að fresta opnun þriggja útibúa Spron, sem fyrirhuguð var í dag.

Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP banka, segir í Fréttablaðinu í dag að kaup MP banka á útibúanetinu sé í uppnámi vegna aðgerða Kaupþings til að hindra þau. Þar með sé ráðning bankans á 45 fyrrverandi starfsmönnum Spron einnig í uppnámi.

 

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Seðlabanki Íslands óttist að áhlaup verði gert á Kaupþing sem bankinn myndi ekki ráða við ef MP banki kaupi útibúanetið, en fyrrverandi viðskiptavinir Spron voru fluttir til Kaupþings og búist er við að stór hluti þeirra muni flytja viðskipti sín aftur yfir í útibú Spron.

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Kaupþings, segir það af og frá að bankinn sé að reyna að hindra kaupin. Stjórnvöld hafi farið fram á það við Kaupþing að bankinn tæki við innistæðum fyrrverandi viðskiptavina Spron til að tryggja að þær væru á öruggum stað. Því hafi Kaupþingi þótt eðlilegt að gengið væri frá skuldabréfi til bankans áður en hafist væri handa við að selja eignir Spron, því með flutningi á innistæðum Spron sé Kaupþing orðinn stærsti kröfuhafi sparisjóðsins.

Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fundi í dag og að niðurstaða í málinu liggi fyrir seinnipartinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×