Viðskipti innlent

Tekjuhalli hins opinbera 209 milljarðar í fyrra

Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var hið opinbera var rekið með 17 milljarða króna tekjuhalla samanborið við 19,6 milljarða króna tekjuafgangi á sama tíma 2007. Hallinn var svipaður fyrir árið í heild en þá eru ótalin 192 milljarða króna yfirtaka ríkissjóðs á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabankans. Að henni meðtalinni er tekjuhalli hins opinbera 209,3 milljarðar króna 2008 eða 14,3% af landsframleiðslu.

Þetta kemur fram í Hagtíðindi Hagstofunnar í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera á 4. ársfjórðungi 2008.

Á árinu 2008 sem heild var tekjuhalli hins opinbera 17,2 milljarðar króna eða 1,2% af landsframleiðslu, en til samanburðar varð 70,6 milljarða króna tekjuafgangur á fjármálum hins opinbera 2007 eða sem svara til 5,4% af landsframleiðslu.

Verulegur viðsnúningur hefur því orðið á fjármálum hins opinbera milli ára sem fyrst og fremst á rætur að rekja til samdráttar í tekjum þess, en skatttekjur drógust lítillega saman milli ára í krónum talið á sama tíma og útgjöldin jukust um 18,2%. Þá eru ótalin 192 milljarða króna yfirtaka ríkissjóðs á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabankans. Að henni meðtalinni er tekjuhalli hins opinbera 209,3 milljarðar króna 2008 eða 14,3% af landsframleiðslu.

Tekjuafkoma ríkissjóðs og almannatrygginga var neikvæð um 14,2 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2008 samanborið við 17,9 milljarða króna jákvæða afkomu árið áður. Á árinu öllu var tekjuafkoma þessara aðila neikvæð um rúmlega 8 milljarða króna samanborið við 62,7 milljarða króna jákvæða afkomu árið 2007.

Tekjuafkoma sveitarfélaganna var einnig neikvæð á 4. ársfjórðungi 2008 eða um 2,9 milljarða króna og því mun lakari en á sama tíma 2007 er hún var jákvæð um 1,8 milljarða króna. Áætlað er að tekjuafkoma sveitarfélaganna verði neikvæð um rúmlega 9 milljarða króna á árinu 2008 samanborið við jákvæða afkomu upp á 8 milljarða króna á árinu 2007. Miklar endurgreiðslur vegna gatnagerðargjalda og sölu byggingarréttar skýra að hluta þennan mikla viðsnúning.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×