Viðskipti innlent

Fær Kaupþing Bónus?

Tveir starfsmenn Kaupþings hafa verið skipaðir í stjórn móðurfélags Haga. Félagið er nú skráð í höfuðstöðvum Kaupþings. Jón Ásgeir Jóhannesson og fjölskylda hafa nokkrar vikur til að koma með nýtt fé í reksturinn - takist það ekki lenda Hagar í ríkiseigu.

Tilkynnt var fyrir um viku að Hagar hefðu lokið endurfjármögnun félagsins í samstarfi við Landsbankann og Kaupþing. Í tilkynningu frá Högum kom fram að félagið hefði greitt að fullu skuldabréfaflokk þess, upphaflega 7 milljarða króna. Hagar eru í eigu félagsins 1998 hf. sem er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu.

Stjórn 1998 hefur verið skipuð þeim Ingibjörgu Pálmadóttur, Hreini Loftssyni og Kristínu Jóhannesdóttur. Þau eru ekki lengur skráð í stjórn félagsins en Sigurjón Pálsson og Regin Freyr Mogensen, lögmenn sem starfa hjá Kaupþingi eru nú komnir í stjórn auk Jóhannesar Jónssonar sem kenndur er við Bónus. Þá hefur heimilisfang félagsins einnig verið flutt í höfuðstöðvar bankans.

Jóhannes segir að þegar endurfjármögnunin hafi verið gerð hafi verið gerður skriflegur samningur milli Kaupþings og eigenda félagsins að auka hlutafé í því.

„Það er okkar mál að sinni," segir Jóhannes aðspurður hvert félagið ætli að sæki það hlutafé. Hann segir félagið hafa nokkrar vikur til þess. Jóhannes vill ekki gefa upp hversu mikið fé þurfi að koma með inn í Haga.

Jóhannes segir að þetta þýði ekki fjölskyldan sé að missa völd í Högum. „Nei, alls ekki."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×