Skoðun

Andskotinn og hagfræðin

Guðmundur Ólafasson skrifar

Gunnar Tómasson hagfræðingur, sem raunar hefur haldið því fram að hagfræði sé mestan part bull, gerir mér þann heiður að nefna mig til í tengslum við það sem hann kallar „hagfræði andskotans". Þar heldur hann því fram að skuldarar beri tvöfaldan skaða miðað við lánardrottna þegar verðgildi peninga fellur í verðbólgu.

Einfaldasta aðferðin til þess að kanna þessa kenningu er að athuga hvernig þetta hefur verið, til dæmis síðastliðin 20 ár hér á Íslandi. Þá kemur í ljós að raunvextir af verðtryggðum lánum eru yfirleitt 1,5-2% lægri en af óverðtryggðum lánum, enda velja Íslendingar yfirleitt verðtryggð lán.

Flestir ættu að vera einfærir að reikna hverju munar á 5% og 6,75% vöxtum til langs tíma, en á einu ári munar þetta 350 þúsund krónum af 20 milljón króna láni, sem dýrara er að taka óverðtryggt lán. Fullyrðing Gunnars um tvöfalt tap skuldara er því einfaldlega röng. Þetta er í samræmi við skoðanir Williams C. Dudley, forstöðumanns þeirrar deildar Seðlabanka Bandaríkjanna sem er í New York, frá því 10. febrúar sem hvetur til notkunar verðtryggingar. Auk þess má benda áhugasömum á greinar Helga Tómassonar í Vísbendingu 2008 og Ásgeirs Daníelssonar í Efnahagsmálum, riti Seðlabankans frá því í febrúar nýverið.

Nú um stundir er verðbólga neikvæð og mun höfuðstóll lána lækka um 0,5% næstkomandi mánaðamót. Þannig mun lán sem stendur í 20 milljónum króna lækka um 100.000 krónur. Það er því réttnefndur andskoti almennings sem vill afnema verðleiðréttingu núna, loksins þegar skuldarar hafa ótvíræðan hag af henni.

Höfundur er hagfræðingur.






Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×