Viðskipti innlent

Pálmi Haralds og Magnús Ármann báru vitni í héraðsdómi

Athafnamennirnir Pálmi Haraldsson og Magnús Ármann voru kallaðir til vitnis í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar fóru fram vitnaleiðslur í fjársvikamáli sem ríkissaksóknari hefur höfðað á Karl Georg Sigurbjörnsson lögmann. Þeir sögðust báðir hafa litið á kaup sín á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Hafnarfjarðar sem gott viðskiptatæri enda hafi sameining sjóðsins við aðra sparisjóði legið fyrir. Pálmi segist heldur ekki hafa vitað af því að hann væri að kaupa bréfin af A Holding.

Málavextir eru að Karl Georg Sigurbjörnsson ásamt Sigurði G. Guðjónssyni höfðu milligöngu um að kaupa stofnfjárhluti í Sparisjóði Hafnarfjarðar árið 2006 fyrir A Holding, dótturfélag Baugs. A holding SA er staðsett í Lúxemborg og fóru kaupin í gegnum útibú þess í Sviss.

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, var einn af stofnfjáreigendum í sparisjóðnum og hafði milligöngu um að fjórir stofnfjáreigendur seldu bréfin sín fyrir 50 milljónir króna í gegnum Karl Georg. Dótturfélag Baugs seldi svo bréfin til Sparisjóðs vélstjóra og nokkurra fagfjárfesta, m.a. Fons og Vatnaskila fyrir 90 milljónir hvern hluta.

Fimmeningarnir telja að Karl hafi hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar um hámarksverð sem hægt var að fá fyrir stofnfjárbréfin og er Karl ákærður fyrir fjársvik.

Í máli Pálma í morgun kom fram að hann hafi ekki átt nein viðskipti við Karl Georg heldur hafi hann aðeins verið í sambandi við Stefán Hilmarsson fjármálastjóra Baugs við kaup á hlutnum. Hann segist heldur ekki hafa vitað að hluturinn hafi verið í eigu A Holding.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×