Viðskipti innlent

Hvorki tími né aðstæður til að skoða styttri vinnuviku

Samtök atvinnulífsins telja að hvorki sé tími né aðstæður til þess að skoða hvort stytta eigi vinnuvikuna til að sporna gegn atvinnuleysi eins og ríkisstjórnin vill gera.

Fjallað er um málið í fréttabréfi samtakanna. Þar segir að í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er ákvæði um aðgerðir til þess að sporna gegn atvinnuleysi og þess getið í því samhengi að metnir verði kostir þess að stytta vinnuvikuna. Þetta kemur nokkuð á óvart því vinnutími er viðfangsefni kjarasamninga og meðal samningsaðila hafa undanfarin ár ekki farið fram neinar umræður um styttingu vinnuvikunnar.

Orlof er töluvert lengra á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum og sérstakir frídagar sömuleiðis fleiri. Ársvinnutími í dagvinnu er hvergi lægri nema í Þýskalandi og Frakklandi og hvorki eru tilefni né aðstæður til þess nú að eyða miklum tíma í skoðun á því hvort stytta eigi vinnuvikuna á Íslandi.

Í raun er vinnuvika á dagvinnutaxta styttri en 40 stundir hér á landi vegna þess að neysluhlé teljast til vinnutíma. Þannig er virkur vinnutími verkafólks og iðnaðarmanna 37:05 stundir á viku, afgreiðslufólks 36:35 og skrifstofufólks 36:15 stundir. Vinnutími vaktavinnufólks er jafnan styttri en dagvinnufólks og má nefna að í stóriðjufyrirtækjunum er algengt að meðalvinnutími á viku sé tæpar 34 stundir hjá starfsmönnum á þrískiptum vöktum. Að sama skapi er vaktavinnufólk í starfi hjá ríkinu, t.d. í heilbrigðiskerfinu, með styttri vinnuskyldu en dagvinnufólk.

Í yfirstandandi efnahagsþrengingum hefur meðalvinnutími verið að styttast, bæði með minnkandi yfirvinnu og lækkun starfshlutfalla fullvinnandi fólks tímabundið í 80-90% og í sumum tilfellum enn meira. Þær aðgerðir sem vinnuveitendur, bæði í einka- og opinbera geiranum hafa gripið til, hafa beinlínis haft það að markmiði að standa vörð um störfin og forðast uppsagnir.

Vandséð er að miðstýrðar ákvarðanir um vinnutíma geti gegnt neinu hlutverki í þessu samhengi. Þvert á móti mætti ætla að miðstýrðar ákvarðanir á þessu sviði myndu valda auknum launakostnaði og það er ekki svigrúm til þess við núverandi aðstæður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×