Viðskipti innlent

Viðræður um kaup í Össur ekki að frumkvæði Eyrir Invest

Eyrir Invest staðfestir að hafa móttekið tilboð í hlutafjáreign sína í Össuri eftir viðræður við tiltekna einkaframtakssjóði. Viðræður þessar voru ekki að frumkvæði Eyris Invest.

Í tilkynningu segir að Eyrir Invest hafnaði tilboðum sem komu í hlut félagsins enda endurspegluðu tilboðin að mati Eyris Invest ekki þá virðisaukningu sem framundan er í rekstri Össurar. Eyrir Invest mun ekki hafa frumkvæði að frekari viðræðum.

Eyrir Invest er langtímafjárfestir sem hefur þá stefnu að fjárfesta í fyrirtækjum sem geta orðið leiðtogar á heimsvísu. Eyrir Invest hefur þannig verið hluthafi í Össuri og Marel frá árinu 2004 og er nú leiðandi hluthafi í Marel með um 40% hlut og annar stærsti hluthafinn í Össuri með 20% hlut.

Eyrir Invest hefur stutt Marel og Össur til vaxtar á síðustu árum og hafa þau náð forystuhlutverki á heimsmarkaði, hvort á sínu sviði. Raunveruleg verðmætasköpun félaganna verður til þegar þau einbeita sér að auknum innri vexti og hagnaði, á grundvelli stærðar og styrks félaganna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×