Innlent

Skipa saksóknara í stað Valtýs

Hugsanlegt er að starfsmönnum sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins verði fjölgað í 36.
Hugsanlegt er að starfsmönnum sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins verði fjölgað í 36.

Skipaður verður sérstakur ríkissaksóknari sem taka mun við öllum störfum ríkissaksóknara sem tengjast á einhvern hátt bankahruninu, verði frumvarp dómsmálaráðherra sem rætt var á Alþingi í gær að lögum.

Samkvæmt frumvarpinu mun Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari vegna bankahrunsins, heyra undir sérstakan ríkissaksóknara. Þar með er ætlunin að taka alveg fyrir aðkomu Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara að málum tengdum bankahruninu, en hann hefur lýst sig vanhæfan í þeim málum vegna starfa sonar síns sem annar forstjóra Exista.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að embætti sérstaks saksóknara verði „stóreflt" frá því sem nú er. Bætt verður við þremur saksóknurum, sem heyra munu undir sérstakan saksóknara. Þeir munu hafa sjálfstætt ákæruvald og taka sjálfir ákvarðanir um ákærur. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkisins hækka um 43 milljónir króna á ári, samkvæmt fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær. Í máli ráðherra kom fram að hugmyndir væru uppi um að fjölga verulega í starfsliði sérstaks saksóknara. Í stað um tuttugu starfsmanna nú verði þeir 36 talsins; fjórir saksóknarar, fjórtán lögfræðingar, tólf lögreglumenn og fjórir endurskoðendur, auk tveggja annarra starfsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×