Viðskipti innlent

Bermúda semur við Norðurlönd um upplýsingamiðlun

Norðurlöndin hafa nú gengið frá samningi við Bermúda um upplýsingamiðlun sem koma á í veg fyrir skattaundanskot þegna Norðurlandanna á Bermúda.

Fjallað er um málið á norden.org og þar segir að samningurinn sé hluti af umfangsmiklu norrænu verkefni til að uppræta skattaskjól, en áður hafa Norðurlönd gert sambærilega samninga við Mön, Jersey, Guernsey og Caymaneyjar. Þá eru samningaviðræður langt komnar við meðal annars Bresku Jómfrúreyjarnar, Arúba og Hollensku Antilleyjarnar.

„Með samningum um upplýsingamiðlun til að koma í veg fyrir undanskot frá skatti sýna stjórnvöld á Bermúda að þau séu reiðubúin til að skuldbinda sig og uppfylla staðla OECD um gegnsæi og upplýsingamiðlunar á sviði skattamála," sagði Paula A. Cox fjármálaráðherra Bermúda við undirritunina í House of Sweden í Washington DC á fimmtudag. Hún lagði áherslu á að samningurinn væri árangur umfangsmikillar vinnu margra aðila.

Samningurinn var undirritaður af sendiherrum Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar auk fulltrúa ríkisstjórna Finnlands, Færeyja og Grænlands. Hann veittir skattayfirvöldum á Norðurlöndum aðgang að upplýsingum frá skattayfirvöldum á Bermúda um innstæður og tekjur Norðurlandabúa sem ætti að gefa upp til skatts í heimalandinu.

Nokkrir tvíhliða verslunarsamningar voru einnig undirritaðir í Washington, en þeir eru hluti af samstarfinu milli Bermúda og Norðurlanda. Jonas Hafström sendiherra Svíþjóðar sem var gestgjafi við undirritunina, sagði að Norðurlöndin vonuðust til að samstarfið myndi eflast á öllum þeim sviðum sem samningarnir ná til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×