Viðskipti innlent

Deilan um eignir og skuldir Exista við Kaupþing fyrir dóm

Sigríður Mogensen skrifar
Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings hafa gert samkomulag við Exista um að dómstólaleiðin skuli farin til að skera úr um hvernig kröfur verða gerðar upp.

Við sögðum frá því í fréttum okkar nú í lok maí að deilur stæðu yfir milli Exista og skilanefnda gömlu bankanna ásamt Nýja Kaupþings um það hvernig gera eigi upp eignir og skuldir.

Deilurnar snúast um kröfur sem skilanefndir Kaupþings, Landsbankans og Glitnis ásamt Nýja Kaupþingi telja sig eiga á hendur Exista. Kröfurnar eru meðal annars tilkomnar vegna gjaldmiðlaskiptasamninga, en deilur eru um á hvaða gengi eigi að gera þá upp. Tugir milljarða eru í húfi.

Forsvarsmenn Exista telja að eignir og skuldir milli bankanna og félagsins hafi jafnast út við þrot bankanna. Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður félagsins, sagði í samtali við fréttastofu þann 26. maí að ljóst væri að málið myndi enda fyrir dómstólum.

Skilanefnd Glitnis hefur nú gjaldfellt kröfur sínar á Exista. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur engin ákvörðun verið tekin ennþá hjá skilanefnd Landsbankans um hvort þeir hyggist gera slíkt hið sama. Viðræður séu í gangi um lausn á málinu.

Heimildir fréttastofu herma hins vegar að Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings hafi náð samkomulagi við félagið um að dómstólaleiðin skuli farin til að komast að niðurstöðu um hvernig skuldajöfnun fari fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×