Viðskipti innlent

Gengið mun lægra en peninganefnd telur viðunandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Svein Harald Oygard kynnti stefnu Seðlabankans í dag. Mynd/ Vilhelm.
Svein Harald Oygard kynnti stefnu Seðlabankans í dag. Mynd/ Vilhelm.
Gengi krónu er mun lægra en peningastefnunefndin hefur talið viðunandi þó það hafi talist stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun. Fyrir vikið hefur hægt á hjöðnun verðbólgunnar. Eigi að síður er þess vænst að verðbólga minnki hratt á ný síðar á árinu. Þetta kemur fram í stefnuyfirlýsingu Seðlabanka Íslands, sem birt var í dag.

„Þegar höft á fjármagnshreyfingar eru til staðar ætti aukinn afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum að styrkja gengi gjaldmiðilsins. Tímabundnir áhrifaþættir, t.d. rýrnun viðskiptakjara, árstíðarbundnar vaxtagreiðslur til erlendra aðila og árstíðarbundin aukning innflutnings, hafa á ýmsum tímum haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og gengi krónunnar. Áhyggjuefni er hins vegar að gengi krónunnar hefur ekki hækkað að þessum tímabundnu áhrifum gengnum. Því er mikilvægt að ábati af krónueignum sé nægur. Það hefur bæði áhrif á tilhneigingu til þess að fara í kringum gjaldeyrishöftin og á hvata útflutningsfyrirtækja til að breyta gjaldeyristekjum sínum í krónueignir," segir í yfirlýsingunni.

Seðlabankinn segir að staða erlendra aðila í krónum hafi lækkað nokkuð undanfarna mánuði, sem bendi til þess að farið sé í kringum höftin í einhverjum mæli. Fyrirtæki virðist einnig hafa byggt upp innstæður á gjaldeyrisreikningum í innlendum bönkum. Þær hafi þó lítið breyst undanfarnar vikur. Engin skýr merki séu um að lækkun stýrivaxta fyrr á þessu ári eigi umtalsverðan þátt í því að farið sé í kringum höftin, að innstæður á gjaldeyrisreikningum hafi aukist, eða að hún skýri almennt lágt gengi krónunnar. Þó sé ekki heldur hægt að útiloka slík tengsl. Á meðan krónan sé jafn veik og hún hafi verið undanfarna mánuði séu því sterk rök gegn frekari lækkun vaxta.. Fyrir vikið hafi hægt á hjöðnun verðbólgunnar. Eigi að síður sé þess vænst að verðbólga minnki hratt á ný síðar á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×