Viðskipti innlent

Sexhundruð manns hafa sótt um teygjulán hjá Íslandsbanka

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Rúmlega 600 manns hafa nú sótt um svokölluð teygjulán hjá Íslandsbanka, samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Teygjulán eru fyrir þá viðskiptavini bankans sem eru með húsnæðislán í erlendri mynt og fela þau það í sér að viðskiptavinurinn greiðir sömu afborgun af erlendu láni og greitt var 2. maí 2008.

Þannig að í stað þess að afborganir sveiflist hver mánaðarmót og ráðist af gengisþróun krónunnar, þá færist sú sveifla yfir á lánstímann sem lengist og styttist eftir því hvernig gengi krónunnar þróast. Ef krónan veikist, þá lengist lánstíminn og öfugt. Íslandsbanki býður einnig upp á frestun afborgana höfuðstóls og vaxtagreiðslna erlendra húsnæðislána í 6 til 12 mánuði í senn.

Landsbankinn og Kaupþing bjóða einnig ýmis úrræði fyrir þá sem eru í vanda staddir vegna erlendra húsnæðislána. Hjá Kaupþingi er hægt að sækja um tímabundna frestun afborgana höfuðstóls erlendra húsnæðislána í allt að fjóra til sex mánuði. Auk þess er hægt að sækja um tímabundna frestun afborgana vaxtagreiðslna erlendra húsnæðislána í allt að 3 mánuði. Vextir í greiðslufresti leggjast þá við höfuðstól lánsins.

Viðskiptavinir Landsbankans sem eru með gengistryggð lán með veði í íbúðarhúsnæði geta óskað eftir greiðslujöfnun lánanna. Þá er mögulegt að fresta afborgunum húsnæðislána í erlendri mynt í allt að eitt ár að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ekki hafa fengist upplýsingar um fjölda þeirra sem sótt hafa um slík úrræði hjá Landsbankanum og Kaupþingi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×