Viðskipti innlent

MP banki skiptir um skoðun og styður greiðslustöðvun Hansa

MP banki, einn stærsti kröfuhafi í Hansa ehf. sem á enska fótboltaliðið West Ham hefur fallið frá því að mótmæla áframhaldandi greiðslustöðvun félagsins en meferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Lögmaður MP banka tók til máls við upphaf dómþings. Í máli hans kom fram að frá fyrirtöku málsins hafi komið í ljós að aðrir kröfuhafar, meðal annars skilanefnd Straums hafi náð sáttum í málinu og því hafi MP fallið frá mótmælum og styður nú kröfu um áframhaldandi greiðslustöðvun.

Lögfræðingur Hansa sagði tvö atriði aðallega styðja kröfuna um áframhaldandi greiðslustöðvun, annars vegar umbreyting á skuldum í hlutafé sem væri nánast búið að uppfylla og hins vegar sala á West Ham.

Lögmaðurinn sagði menn vongóða um að sala félagsins myndi ganga í gegn á næstunni. Dómari sagði að krafan um áframhaldandi greiðslustöðvun Hansa yrði tekin til úrskurðar á föstudaginn.

Fallist dómari á kröfuna mun greiðslustöðvun Hansa, sem er í meirihlutaeigu Björgólfs Guðmundssonar, verða framlengd um þrjá mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×