Viðskipti innlent

Engin ákvörðun verið tekin um afskriftir hjá 1998

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri nýja Kaupþings, segir að ekkert hafi verið afskrifað af skuldum eigenda Haga við bankann. Bankinn sé að vinna í málinu, og farið sé yfir ýmisskonar valkosti í þeim efnum. Ótímabært sé að vera með vangaveltur um afskriftir.

Eignarhaldsfélagið 1998 sem á Haga skuldar Kaupþingi 48 milljarða króna. Endurskipulagning á eignarhaldi Haga stendur yfir þessa dagana en tveir fulltrúar frá nýja Kaupþingi hafa þegar tekið sæti í stjórn 1998. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings, segir ekkert hafa verið afskrifað af skuldum 1998 við bankann.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er samkomulag á teikniborðinu sem gerir ráð fyrir að Kaupþing eignist 40% í Högum og Jón Ásgeir Jóhannesson og viðskiptafélagar hans 60% gegn því að leggja fram sjö milljarða króna. Þetta myndi þýða tugmilljarða afskriftir hjá 1998 ehf.

Aðspurður hvort afskriftir komi til greina segir Finnur að verið sé að vinna í málinu innan bankans og eru ýmsir valkostir skoðaðir í þeim efnum. Ótímabært sé hinsvegar að segja til um hver endanleg niðurstaða í málinu verði.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×