Innlent

Neita að greiða 94 milljónir

Bæjarráð Akraness
Bæjarráð Akraness

„Við erum mjög, mjög, mjög ósátt við þetta,“ segir Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri Akraness, um innheimtubréf frá Landsbankanum vegna gjaldeyrisláns sem sveitarfélagið tók hjá bankanum.

Deila er milli skilanefndar Landsbankans og Akraneskaupstaðar vegna 94 milljóna króna sem bankinn segir vera eftirstöðvar af gjaldeyrisláninu. Borga verði kröfuna strax eða semja um greiðslu hennar. „Að öðrum kosti verður krafan innheimt með aðför eða atbeina dómstóla,“ segir í bréfi til bæjarins. Bæjar­stjórnin neitar að borga.

„Staðreyndin er sú að við erum búin að borga mikið meira af þessu láni heldur en við högnuðumst um á þeim tíma sem það var tekið,“ segir Gísli. Hann útskýrir að lánið hafi verið sams konar og önnur sveitarfélög hafi tekið og átt að vera þeim til hagsbóta. „Þessi gjaldeyrislán áttu að vera afar hagstæð og voru það á meðan krónan var í lagi. Eftir fall krónunnar hefur þetta hoppað upp um áttatíu til níutíu milljónir frá í október.“

Að sögn Gísla snýst ágreiningurinn fyrst og fremst um það við hvaða stig gengisvísitölunnar eigi að miða. Eðlilegt sé að miða við 167 til 176 stig. Þegar bærinn hafi viljað gera upp lánin í febrúar hafi vísitalan staðið í 190 stigum. „Við margleituðum svara hjá skilanefndinni en fengum engin svör. Svo kom bara þetta bréf núna þar sem miðað er við gengisvístöluna 230,“ segir Gísli, sem kveður bæinn nú hafa sett málið í hendur lögfræðiskrifstofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×