Viðskipti innlent

Gengi krónunnar ætti að styrkjast

Greining Íslandsbanka býst við því að krónan styrkist.
Greining Íslandsbanka býst við því að krónan styrkist.
Nýsamþykktar lagabreytingar sem skylda útflytjendur til að selja vörur sínar í erlendri mynt ættu að styðja við krónuna næsta kastið, að mati Greiningar Íslandsbanka. Þær endurspegla hins vegar þau vandkvæði sem séu á því að ná tilgangi gjaldeyrishafta, og um leið þörfina á því að slík höft verði eins skammvinn og kostur sé. Með lögunum er girt fyrir að útflytjendur geti fengið greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum og kaupandinn geri á móti upp viðskiptin í erlendum gjaldmiðlum við annan aðila utan landsteinanna. Í greinargerð með lagafrumvarpinu sem varð að lögum í gærkvöldi kemur fram að vísbendingar hafi verið um slík viðskipti undanfarið og að það hafi dregið úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans og styrk krónunnar.

Gengislækkun vikunnar gengin til baka



Greining Íslandsbanka segir að viðbrögð á markaði það sem af er degi séu á þá lund sem vænta mætti. Þannig hafi gengi krónu að jafnaði hækkað um 2,1% gagnvart helstu gjaldmiðlum og kosti evran nú tæplega 160 krónur. Gengislækkun vikunnar sé því gengin til baka og gott betur. „Á skuldabréfamarkaði hefur krafa íbúðabréfa hækkað um 0,1 - 0,4 prósentustig en krafa ríkisbréfa er ýmist óbreytt eða hefur lækkað lítillega. Verðbólguálag hefur því lækkað og er það nú til þriggja ára tæplega 2%. Velta er þó tiltölulega hófleg enn sem komið er," segir í Greiningu Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×