Viðskipti innlent

Steingrímur áréttar eignarhald kröfuhafa á bönkunum

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra áréttar vilja íslenskra stjórnvalda á því að erlendir kröfuhafar bankanna fái eignarhald á þeim upp í kröfur sínar. Þetta kemur fram í viðtali Blomberg-fréttaveitunnar við Steingrím.

"Ein af hugmyndunum á bakvið eignarhald kröfuhafanna er að slíkt myndi tryggja okkur góð sambönd við erlenda banka," segir Steingrímur. "Við erum ákveðnir í að endurskipulagningu bankakerfisins í heild verði lokið innan nokkurra vikna."

Fram kemur í máli Steingríms að svo virðist sem mestur áhugi kröfuhafanna sé á eignarhaldi á Kaupþingi. "Sennilega væri auðveldast að semja um að kröfuhafarnir breyti kröfu sínum í eignarhluti þar og þetta er því örugglega opinn möguleiki af okkar hálfu," segir Steingrímur.

Íslensk stjórnvöld bíða nú eftir að Deloitte & Touche ljúki endurskoðun sinni á eignum og skuldum íslensku bankanna svo að kröfuhafar geti séð eftir hve miklu er að slægjast í þrotabúum þeirra.

Steingrímur segir að þessari vinnu ætti að verða lokið innan einnar eða tveggja vikna. "Eftir þann tíma getum við sett upp módel um hvernig kröfurnar verða meðhöndlaðar," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×