Viðskipti innlent

Góður árangur hjá Mannviti í Ungverjalandi

Verkfræðistofan Mannvit lauk því að bora fyrstu holuna í bænum Szentlörinc í suðvesturhluta Ungverjalands í síðustu viku. Holan er 1.820 metra djúp og fyrstu prófanir og mælingar á eiginleikum borholunnar gefa til kynna góðan árangur.

Í tilkynningu segir að í loftdælingu sem staðið hefur undanfarna viku gefur borholan um 20 sekúndulítra af tæplega 90 gráðu heitu vatni, en 5-10 sekúndulítra sjálfrennsli er úr holunni. Frekari prófanir og greiningar á efnainnihaldi vatnsins standa yfir. Vatnið verður nýtt til húshitunar í Szentlörinc. Alls verða boraðar á bilinu 50-70 holur víðsvegar um Ungverjaland.

Undanfarin þrjú ár hefur verkfræðistofan Mannvit unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði jarðfræði og jarðeðlisfræði vegna jarðhitanýtingar í Ungverjalandi. Verkefnin eru unnin fyrir ungverska einkafyrirtækið PannErgy sem áætlar framleiðslu á grænni orku til húshitunar á a.m.k. 70.000 heimilum víðs vegar í Ungverjalandi og hefur í því sambandi gert samstarfssamning við um 30 sveitarfélög og stofnað með þeim sameiginleg félög um rekstur hitaveitna. Að auki er stefnt að framleiðslu rafmagns með jarðvarma. Áætlaðar heildarfjárfestingar PannErgy á þessu sviði nema á bilinu 350 til 500 milljóna evra.

Að sögn Sigurðar Lárusar Hólm, verkefnisstjóra á skrifstofu Mannvits í Búdapest (Mannvit kft.), er þetta í fyrsta skipti sem borað er niður í jarðlög á tveggja kílómetra dýpi í Ungverjalandi, þar sem markmiðið er að vinna heitt vatn til húshitunar. Það sem er sérstakt við þá hugmyndafræði sem liggur að baki boruninni er að borað er beint ofan í stórt sprungukerfi. Þannig er nú verið að innleiða í Ungverjalandi aðferðir við jarðhitavinnslu sem hafa þekkst í áratugi á Íslandi. Hér er því byggt á langri reynslu Íslendinga í nýtingu jarðhita.

Sigurður Lárus segir þetta vera í fyrsta skipti sem íslenskur aðili tekur að sér einskonar alverktöku varðandi nýtingu jarðhita á erlendri grundu, en Mannvit hefur annast allar nauðsynlegar jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknir, fyrst á stórum svæðum sem tóku nánast til alls Ungverjalands og síðan nákvæmari rannsóknir á minni svæðum m.t.t staðsetningar á borholum.

Þá hefur Mannvit séð um allan borundirbúning, þar með talið hönnun á borholum, og síðan sjálfa borframkvæmdina og eftirlit með henni. Mannvit mun einnig sjá um hönnun hitaveitunnar og hafa umsjón með framkvæmd þess hluta verksins. Borverktaki er ungverska fyrirtækið Aquaplus.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×