Viðskipti innlent

Seðlabankinn styrkir gengi krónu með inngripum í morgun

Krónan hefur sótt í sig veðrið í morgun eftir veikingu gærdagsins og skrifast styrkingin á inngrip Seðlabankans. Nemur styrking dagsins 0,6% það sem af er degi.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sinu. Þar segir að Seðlabankinn, sem látið hefur gjaldeyrismarkaðinn óáreittan það sem af er september, virðist leitast við að halda gengi evru gagnvart krónu í grennd við 180 kr. þessa dagana, en þegar þetta er ritað kostar evran 181,5 kr., Bandaríkjadollar 123,4 kr. og breska pundið 201,9 kr. á innlendum gjaldeyrismarkaði.

Á aflandsmarkaði virðist ríkja Fróðárfriður nú um stundir. Hefur gengi evru gagnvart krónu verið á bilinu 210-220 frá miðjum júlí og velta mun minni en raunin var á öðrum ársfjórðungi, ef marka má miðlunarkerfi Reuters.

Frá júníbyrjun, þegar segja má að aukinn stöðugleiki hafi komist á krónuna eftir miklar sveiflur framan af ári, hefur Seðlabankinn selt evrur fyrir 5,5 milljarða kr. í þeirri viðleitni sinni að styðja við bakið á krónunni.

Þrátt fyrir þessi inngrip, metafgang af þjónustujöfnuði í sumar að mati greiningarinnar og takmarkaðar nýjar vaxtagreiðslur til útlendinga frá miðju ári hefur krónan ekki gert meira en halda sjó gagnvart evru undanfarna þrjá mánuði.

Þessar vikurnar dregur hratt úr innstreymi gjaldeyris frá ferðamönnum og gæti því róður Seðlabankans til stuðnings krónu heldur þyngst næsta kastið. Ekki er þó loku fyrir það skotið að tiltrú manna á krónunni, sem er afar lítil um þessar mundir, geti aukist ef skriður kemst aftur á áætlun AGS og stjórnvalda þegar líður á haustið. Lokahnútur verður bundinn á endurreisn fjármálakerfisins, Icesave-málið verður til lykta leitt, lánsfé berst frá nágrannaþjóðum og fyrstu skref til afléttingar gjaldeyrishafta verða stigin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×