Innlent

Möguleiki talinn á heimsfaraldri

Óbreytt áhættumat Haraldur segir engin tilmæli hafa borist um ferðatakmarkanir.
Óbreytt áhættumat Haraldur segir engin tilmæli hafa borist um ferðatakmarkanir.

Heilbrigðismál „Við erum að afla upplýsinga og fylgjast með, en eins og málum er háttað er ekki búið að breyta áhættumatinu. Það eru engin tilmæli um ferðatakmarkanir og við erum bara á sama stigi og þegar varað var við fugla­flensunni," segir Haraldur Briem, sóttvarnalæknir hjá Landlæknisembættinu, um hugsanlegan svínaflensufaraldur.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varaði í gær við mögulegum heimsfaraldri svínaflensu, en ríflega þúsund tilfelli hafa greinst í Mexíkó síðan í mars og sjúkdómurinn hefur dregið rúmlega 80 manns til dauða. Ellefu manns í Bandaríkjunum hafa greinst með flensuna, en enginn látist og átta skólabörn í New York eru í frekari rannsóknum vegna hugsanlegs smits.

Svínaflensa er öndunarfærasjúkdómur í svínum. Óalgengt er að veiran smitist úr svínum í menn, en það hefur þó gerst í nokkrum tilfellum. Flensan sem er nú að breiðast út er hins vegar blanda af svínaflensu, hefðbundinni inflúensu og afbrigði fuglaflensu sem hefur hvorki greinst í mönnum né svínum áður. „Þegar þeir voru að finna þessa veiru í fólki voru engin tengsl manna við svín svo þetta var greinilega að berast manna á milli, sem er óvenjulegt og lyfti brúnum manna," útskýrir Haraldur. „Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna er að leggja drög að því að búa til bóluefni sem virkar á þessa veiru, en það er álitamál hvort okkar inflúensubóluefni virkar á þennan stofn. Þangað til treystum við á lyf eins og Tamiflu og Relenza sem virka vel," bætir hann við.

„Við erum tilbúin til að breyta okkar áætlunum og grípa til ráðstafana við heimkomu Íslendinga frá áhættusvæðum eins og Mexíkó ef þess þarf. Það eru allir að gera sitt besta til að fá botn í þetta og við látum vita um leið og eitthvað kemur í ljós," segir Haraldur, en upplýsingar má nálgast á heimasíðu Landlæknisembættisins. - ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×