Viðskipti innlent

Iðnaðarráðherra vill létta á sköttum hjá sprotafyrirtækjum

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ræddi m.a um skattabreytingar í ávarpi sínu á aðalfundi Marel í gærdag. Össur vill létta skatta á sprotafyrirtæki.

„Við þurfum að gera þetta með þeim hætti að skilgreindum nýsköpunarfyrirtækjum eins og ykkur verði gert kleift að draga frá skattstofni skilgreindan rannsóknar- og þróunarkostnað og þetta eru ekki bara orð sem að ég er að segja við ykkur," sagði Össur á fundinum.

„Þetta var partur af atvinnupakka ríkisstjórnarinnar, ein af ellefu tillögum sem að ríkisstjórnin samþykkti frá mér síðastliðinn föstudag eftir að ég hafði átt samtöl meðal annars við forvígismenn í þessu fyrirtæki og núna bíður það okkar að smíða þetta í frumvarpsform."

Össur sagði síðan að stefnt væri að því að frumvarp yrði lagt fyrir Alþingi strax eftir kosningar, á vorþingi.

Iðnaðarráðherra ræddi einnig um krónuna og gengisumhverfið. „Það fyrsta sem við þurfum að gera er að búa til stöðugleika í gengisumhverfinu. Ég veit það vel að það þýðir ekkert fyrir mig að koma til fyrirtækja eins og Marel og Össurar og Actavis og CCP og segja ‚keppiði á heimsmarkaði í klofstígvélum krónunnar'. Það er ekki hægt.

Ég lít svo á að krónan hafi lokið hlutverki sínu og að hún hafi átt verulegan þátt í þeirri ógæfu sem að íslenska þjóðin rataði í og því segi ég það að það sem að við getum gert er að segja það alveg skýrt að framtíðin felst í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að taka upp evru," sagði Össur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×