Erlent

Fjörutíu ára gamalt morðsamsæri í dagsljósið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mynd af Elísabetu II tekin í Hobart í Ástralíu í heimsókninni forðum.
Mynd af Elísabetu II tekin í Hobart í Ástralíu í heimsókninni forðum. MYND/TOPHAM

Flett hefur verið ofan af samsæri um að ráða Elísabetu Englandsdrottningu og Filipp hertoga af dögum í Ástralíu árið 1970.

Það var ástralskur fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður á níræðisaldri, Cliff Mc Hardy, sem ákvað loks að rjúfa þögnina um atburði sem gerðust þegar Elísabet og Filipp ferðuðust með járnbrautarlest um ástralskt fjalllendi á leið sinni til bæjarins Orange. Um var að ræða opinbera heimsókn til Ástralíu og hjónin fengu aldrei að vita að nokkuð hefði gerst.

Trjádrumbi hafði verið komið fyrir á brautarteinunum af tilræðismönnum sem enn þann dag í dag eru óþekktir. Svo virðist hins vegar sem undirbúningurinn hafi ekki verið upp á marga fiska enda nægði hindrunin ekki til að stöðva lestina. Óvíst er þó um hvað gerst hefði ef lestin hefði verið á meiri hraða en stjórnandinn ók henni löturhægt.

McHardy fullyrðir að drumburinn hafi verið á teinunum í þeim tilgangi einum að valda Elísabetu og Filipp skaða og sennilega ráða þau af dögum. Ekkert hefði verið á teinunum þegar könnunarlest fór þar um skömmu áður. Enginn var handtekinn vegna málsins en McHardy segist greina frá því nú í þeirri von að tilræðismennirnir gefi sig fram og geri hreint fyrir dyrum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×