Innlent

Skuldastaða heimilanna er ógnvænleg

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Skuldastaða heimilanna er ógnvænleg og fer versnandi, segja Hagsmunasamtök heimilanna og krefjast þess að ríkisstjórnin láti útbúa hagspá heimilanna sem nái yfir sama tímabil og endurreisn ríkissjóðs.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent frá sér ályktun þar sem lýst er eftir hagspá heimilanna til 2013. Þau lýsa yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi stöðu íslenskra heimila og segja tölur Seðlabankans sýna að greiðslubyrði 18% heimila sé þung og mjög þung hjá 36 prósentum heimila. Sú sé staðan þrátt fyrir að stór hluti heimila hafi nýtt sér ýmis úrræði hjá lánastofnunum.

Þá er í ályktuninni vísað í útreikninga sem gerðir voru fyrir fréttastofu Stöðvar 2 sem sýna að skattbyrði fjögurra manna fjölskyldu muni þegar skattahækkanir hafa komið að fullu til framkvæmda eftir þrjú ár aukast um 90 þúsund krónur á mánuði - að jafnaði - frá því sem nú er. Hvernig heimilin eigi að standa undir slíkum álögum ofan á allt er samtökunum hulin ráðgáta.

Eins er í ályktuninni vísað til útreikninga stjórnarmanns í Hagsmunasamtökunum sem sýni að vísitölufjölskyldan sé nú þegar rekin með tveggja milljóna króna rekstrarhalla á ársgrundvelli, augljóst sé að meiri álögur stefni enn fleirum í vanda. Könnun meðal félagsmanna í samtökunum sýni að afgerandi meirihluti þeirra, eða 61%, nái ekki endum saman með tekjum sínum, sé annað hvort gjaldþrota eða á leið þangað eða að safna skuldum eða ganga á sparifé. Tæpur helmingur, eða 44%, félagsmanna telja frekar eða mjög litlar líkur á því að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar næstu sex mánuði.

Í ljósi þessa krefjast Hagsmunasamtökin þess að ríkisstjórnin láti útbúa hagspá heimilanna sem nái yfir sama tímabil og endurreisn ríkissjóðs. Slík hagspá sé nauðsynleg til að sjá hver fjárhagsstaða heimilanna er. Til lítils sé að rétta við fjárhag ríkissjóðs og fjármálafyrirtækja sé það á kostnað heimila, atvinnulífs og sveitarfélaga. Endurreisn allra þessara grunnstoða þurfi að haldast í hendur segir að lokum í ályktun stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×