Viðskipti innlent

MIT velur HR til að halda ráðstefnu

MBA í Háskólanum í Reykjavík mun halda eina stærstu frumkvöðlaráðstefnu heims á næsta ári. Mynd/ E. Ól.
MBA í Háskólanum í Reykjavík mun halda eina stærstu frumkvöðlaráðstefnu heims á næsta ári. Mynd/ E. Ól.
MIT háskólinn í Bandaríkjunum hefur valið MBA í Háskólanum í Reykjavík úr hópi 20 umsækjenda til að halda eina stærstu frumkvöðlaráðstefnu heims í mars á næsta ári. Ráðstefnan heitir MIT Global Start-up Workshop og dregur til sín um 500 frumkvöðla, fjárfesta, stjórnmálamenn, háskólakennara og nemendur alls staðar að úr heiminum.

Aðalsteinn Leifsson, forstöðumaður MBA námsins, tilkynnti þetta á útskrift MBA-nema frá Háskólanum í Reykjavík í dag. Hann segir þetta afskaplega mikinn heiður fyrir HR og að margir virtir skólar hefðu verið á meðal umsækjenda. „Að auki vorum við að ganga frá ráðningu á prófessor í nýsköpun frá Harvard háskóla, dr. Daniel Isenberg," segir Aðalsteinn í tilkynningu sem HR sendi frá sér vegna málsins. „Í þeim kringumstæðum sem íslenskt samfélag og íslenskt viðskiptalíf er í núna er gríðarlega mikilvægt að láta ekki deigan síga heldur þvert á móti að blása til sóknar með sköpun nýrra fyrirtækja og nýrra starfa. Við ætlum svo sannarlega að láta til okkar taka í þeirri sókn," bætir hann við.

Alls útskrifuðust 55 nemendur með MBA-gráðu frá HR í dag. Það má með sanni segja að þetta hafi verið óvenjulegur árgangur, eða öllu heldur óvenju frjósamur árgangur. Frá fyrsta skóladegi og fram að þeim síðasta fæddust 18 börn í hópnum. Að auki er von á þremur börnum til viðbótar í heiminn í sumar. Aðalsteinn Leifsson segir að þessi frjósemi sé góðs viti enda verði næsta ár tileinkað nýsköpun í MBA náminu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×