Innlent

Flytja boðskapinn um nær allt Úganda

Teknir í bakaríið Apegu Eolu Julius Nelson er hér við hlið Jóhanns Felixsonar í Bakaríi Jóa Fel í gær, ásamt samlöndum sínum og samnemendum. fréttablaðið/anton
Teknir í bakaríið Apegu Eolu Julius Nelson er hér við hlið Jóhanns Felixsonar í Bakaríi Jóa Fel í gær, ásamt samlöndum sínum og samnemendum. fréttablaðið/anton

„Ég er mjög spenntur fyrir þessari heimsókn því sjálfur hef ég hug á því að koma á laggirnar bakaríi í Úganda,“ segir Apegu Eolu Julius Nelson, en hann var ásamt tólf manna hópi frá Úganda í fyrirtækjaheimsókn hjá Bakaríi Jóa Fel í gær.

Hópurinn situr tveggja vikna frumkvöðlanámskeið í Háskólanum í Reykjavík (HR) en því lýkur í lok þessarar viku. Þá heldur hópurinn á heimaslóðir en síðan mun hann fara vítt og breitt um Úganda til að kenna og miðla af þekkingu sinni.

„Launin eru afar lág í Úganda og félagsleg aðstoð af skornum skammti,“ segir Apegu Eolu Julius.

„Þannig að margir reyna að hefja einhvers konar rekstur meðfram starfi sínu til að drýgja tekjurnar. En þar sem fólk hefur ekki fengið neina tilsögn við það hvernig á að koma fyrirtæki af stað fara flest þessara fyrirtækja fljótlega á hausinn. Svo eru stjórnvöld að reyna að fá erlenda fjárfesta til að láta til sín taka í Úganda en þá ríður á að heimamenn tileinki sér vinnubrögð sem erlendir fjárfestar þekkja, eins og til dæmis að vinna að viðskiptaáætlunum og svo framvegis þannig að það er mikil þörf fyrir þessa þekkingu í Úganda.“

Apegu Eolu Julius hefur gefið út bók í heimalandi sínu um frumkvöðlafræði en hann á og rekur einnig útgáfufyrirtækið Mastermind Publishers Limited.

„Ég fékk engan til að gefa bókina út svo ég stofnaði útgáfufyrirtæki og gerði það sjálfur en fékk þó stórfyrirtæki til liðs við mig.“

En hann segist vera rétt að byrja. „Ég ætla að opna bakarí sem yrði aðeins fyrsta skrefið á miklum veitingarekstri,“ segir hann.

„Ég er í sambandi við bændur sem geta skaffað mestallt hráefnið.“

Vonir standa til að það verði opnað í ágúst en síðan vill hann opna veitingastaði sem eru opnir lengur og bjóða upp á betri þjónustu en almennt þekkist í Úganda.

Lóa Ingvarsdóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR, segir hópinn þegar hafa farið í heimsóknir í Bláa lónið og Kaffitár.

„Það er mjög gaman að sjá hvernig þau virðast sjá tækifæri í öllum mögulegum hlutum svo þessi neisti á eflaust eftir að tendra mörg bál í viðskiptalífinu,“ segir hún.

Hópurinn kemur til landsins á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem styrkir verkefnið.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×