Viðskipti innlent

Landsbanki og Innovit áfram með Gulleggið

Landsbankinn og Innovit hafa skrifað undir endurnýjun á samstarfssamningi um stuðning við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi háskólanema og nýútskrifaðra. Landsbankinn verður bakhjarl Innovit til næstu tveggja ára og meginbakhjarl Gulleggsins 2009, frumkvöðlakeppni íslenskra háskólanema og nýútskrifaðra.

Í tilkynningu segir að keppnin sé fyrst og fremst stökkpallur fyrir framúrskarandi viðskiptahugmyndir og vettvangur þjálfunar og tengslanets fyrir íslenska háskólanemendur, nýútskrifaða og frumkvöðla. Með öflugum stuðningi, námskeiðum og ráðgjöf sem keppendum stendur til boða samhliða keppninni er það markmið Innovit að skapa grundvöll fyrir nýjum fyrirtækjum og verðmætasköpun á Íslandi.

"Við erum afar þakklát fyrir áframhaldandi stuðning Landsbankans. Það er mikilvægt og jákvætt fyrir okkar skjólstæðinga hjá Innovit, ungt háskólamenntað fólk, að öflug fyrirtæki starfi með okkur að uppbyggingu nýrra fyrirtækja og verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Á tímum sem þessum er afar mikilvægt að stór og smá fyrirtæki standi saman að því að hlúa að menntun og nýsköpun til að stuðla að jákvæðum framtíðarhorfum og hagvexti á Íslandi," segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Innovit

„Það er áralöng hefð fyrir stuðningi Landsbankans við nýsköpun og frumkvöðlastarf í íslensku atvinnulífi. Sú grundvallarhugsun verður áfram við lýði í Landsbankanum þó svo að umhverfi bankanna hafi tekið stakkaskiptum. Samstarfið við Innovit er mikilvægur liður í þeim stuðningi, ásamt verkefnum á borð við Torgið viðskiptasetur, sem bankinn kom nýverið á laggirnar í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands," segir Viggó Ásgeirsson, forstöðumaður Markaðs- og vefdeildar Landsbankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×