Viðskipti innlent

Hundrað manns gætu misst vinnuna á Suðurnesjum

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Hundrað manns munu missa vinnuna við byggingu gagnavers á Suðurnesjum ef ekki tekst að ljúka samningum við ríkið um meðal annars skattamál fyrir næstu mánaðarmót.

Framkvæmdir við fimmtíu milljarða króna rafrænt gagnaver Verne Global á Ásbrú, gamla varnarsvæðisins í Keflavík hafa verið í fullum gangi síðan í maí á þessu ári. Í júní störfuðu t.a.m. 120 menn frá íslenskum Aðalverktökum við byggingu versins. Nú hefur hinsvegar verið dregið úr framkvæmdum og er verkið í hægagangi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne Holdings, sagði í samtali við fréttastofu að fyrirtækið hefði neyðst til að draga saman seglin þar sem það hefur dregist að ljúka við gerð fjárfestingarsamnings við stjórnvöld. Vonir stóðu til að hægt yrði að ljúka honum í sumar. Í honum er skatta- og starfsumhverfi fyrirtækisins skilgreint og meðan ekki er kominn botn í það mál hafi verið farin sú leið að draga úr fjárstreyminu í verkið tímabundið. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun vera gert ráð fyrir því að um 20 manns vinni að byggingu versins, eða um 100 færri en verið hefur.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að lokið hafi verið við gerð fjárfestingarsamningsins á síðustu dögum en enn sé ekki kominn botn í hvernig skattaleg meðferð viðskiptavina fyrirtækisins verði háttað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×