Viðskipti innlent

Eggert Magnússon reynir að kaupa West Ham

Eggert Magnússon er með leynd að reyna endurkomu sem nýr eigandi enska útvalsdeildarliðsins West Ham. Þetta er staðhæft í breska blaðinu The Sun í morgun. Eggert er enn búsettur í London.

 

The Sun segir að formaður West Ham, Andrew Bernhardt, viti af þessum áhuga Eggerts á að eignast félagið að nýju. Fram kemur að Eggert telur að verðmiðinn sem settur er á West Ham, 100 milljón pund, sé of hár. Hinsvegar fylgir ekki sögunni hvað Eggert er reiðubúinn að borga fyrir félagið.

 

Eggert hefur verið legið á hálsi fyrir að vera orsök fjárhagslegrar martraðar félagsins en sjálfur telur Eggert að hann hafi verið gerður að blóraböggli í því máli. Sökin liggi alfarið hjá Björgólfi Guðmundssyni.

 

Tveir aðrir aðilar hafa lýst áhuga sínum á að kaupa West Ham, annar frá Asíu og hinn frá Bandaríkjunum, og keppa því við Eggert um félagið.

 

West Ham er nú í meirihlutaeigu Straums í gegnum félagið CB Holdings.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×