Viðskipti innlent

Persónuafsláttur óbreyttur á næsta ári

Ingimar Karl Helgason. skrifar

Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að persónuafsláttur verði óbreyttur á næsta ári. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, segir að samið hafi verið um hækkun skattleysismarkanna og verðtryggingu. Sambandið samþykki aldrei að skattleysismörkin verði lækkuð að raungildi.

Alþýðusamband Íslands segir í öllum grundvallaratriðum vera sátt við áherslurnar í fjárlagafrumvarpinu. Þær séu enda í takti við það sem rætt var við stjórnvöld í sumar.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að fjárlögin nú, séu sennilega þau erfiðustu í sögu lýðveldisins og jafnvel þótt litið sé enn lengra aftur í tímann. Þetta hafi verið viðbúið, en ýmsilegt sé þó gagnrýnivert eins og frumvarpið er sett fram.

Til að mynda, segir Gylfi að samið hafi verið við ríkið, raunar fyrri ríkisstjórnir, um tvö þúsund króna hækkun á perónuafslætti og áður um verðtryggingu persónuafsláttarins.

Í fjárlagafrumvarpinu segir: „Í ljósi hins alvarlega efnahagsástands og þess að í fjárlagafrumvarpinu er hvorki um að ræða hækkun á grunnfjárhæðum bótakerfanna né gert ráð fyrir hækkun á launum ríkisstarfsmanna, verður persónuafsláttur ekki hækkaður milli ára."

Gylfi Arnbjörnsson, segir þetta vera leið sem samtökin hafni. „Við höfum lýst vilja til þess að koma að breytingu skattkerfis sem hafi það að markmiði að dreifa byrðunum, með þeim hætti að tekjulágum verði hlíft. Það gerir maður ekki með því að láta skattleysismörkin rýrna að verðgildi."

Slíkt yrðu svik við launafólk í landinu.

Gylfi nefnir einnig vaxta og barnabætur og gagnrýnir jafnframt hægagang í framkvæmdum, þar sem lífeyrissjóðir launafólks hyggist leggja fé til verka í stað ríkisins, vegna ástandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×