Viðskipti innlent

Microsoft notar evrugengið 130 krónur til ársloka

Evrugengið 130 mun verða notað í viðskiptum Microsoft við íslensk fyrirtæki, stofnanir og almenning til ársloka. Samningar um það náðust milli Microsoft Íslandi og höfuðstöðva Microsoft fyrir skömmu.

Í tilkynningu segir að raungengi evrunnar er nú u.þ.b. 179 krónur, sem þýðir að Microsoft gengur út frá því í viðskiptum sínum á Íslandi að krónan sé umtalsvert sterkari en hún raunverulega er, með tilheyrandi kjarabótum fyrir viðskiptavini fyrirtækisins á Íslandi.

Slíkt fyrirkomulag hefur verið í gildi frá byrjun desember á síðasta ári, en fram til júníloka var miðað við evrugengið 120. Nauðsynlegt reyndist að breyta viðmiðunargenginu þar sem væntingar Microsoft um styrkingu íslensku krónunnar hafa engan veginn gengið eftir.

Evrugengi Microsoft hér á landi hefur mælst mjög vel fyrir meðal samstarfsaðila Microsoft Íslandi, en verkefnið kom hugbúnaðarviðskiptum af stað aftur í desember sl. eftir að markaðurinn hafði verið algerlega frosinn í kjölfar bankahrunsins. Upp frá því hefur markaður með hugbúnaðarlausnir Microsoft verið líflegur sem skiptir miklu máli fyrir fjölda fyrirtækja sem starfa á þessum markaði og hundruð starfsmanna þeirra sem vinna við sölu, innleiðingu og þróun Microsoft-lausna.

„Þegar við fórum af stað með þennan stuðning við íslenskt atvinnulíf á afar erfiðum tímum síðasta vetur stóð evran í u.þ.b. 174 krónum og við gerðum ráð fyrir því að hún myndi fljótlega styrkjast. Nú, átta mánuðum síðar, er krónan veikari en við upphaf verkefnisins, sem eru gríðarleg vonbrigði," segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi

„Við leggjum þó ekki árar í bát og það er ánægjuefni að tekist hafi að semja við höfuðstöðvar Microsoft um að halda fastgengisstefnunni áfram til ársloka. Það er mikilvæg viðspyrna fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir nú þegar krónan er í sögulegu lágmarki,"










Fleiri fréttir

Sjá meira


×