Erlent

Flórída háskalegast gangandi vegfarendum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Flórída er hættulegasta ríki Bandaríkjanna fyrir gangandi vegfarendur samkvæmt nýrri rannsókn.

Það er ekkert grín að vera á ferð á tveimur jafnfljótum í Orlando, Tampa, Miami og Jacksonville í Flórída. Þessar fjórar borgir raða sér í jafnmörg efstu sætin á lista yfir 10 háskalegustu borgir Bandaríkjanna fyrir gangandi umferð. Það eru regnhlífasamtökin Transportation for America sem kanna reglulega hvar umferð og umferðartengd atriði eru hættulegust og þetta er niðurstaðan í ár.

Rannsóknin tók til 52 þéttbýlissvæða í Bandaríkjunum og gengur hún út á að kanna dánartíðni í umferðinni á hverja 100.000 íbúa og hlutfall fótgangenda þar af. Á meðan hættulegast er að labba um Flórída eru öruggustu borgirnar Minneapolis, Boston, New York og Seattle. Anny Camby hjá Transportation of America segir öryggi fótgangandi vegfarenda ekki hafa batnað mikið síðustu áratugi. Hönnun margra hættulegustu borganna sé frá því skömmu eftir síðari heimsstyrjöld og skipulag þess tíma hafi einfaldlega fyrst og fremst gert ráð fyrir bílaumferð.

Eftir því sem árin líði hafi svo hlutfall gangandi og hjólandi vegfarenda rokið upp án þess að borgarskipulag hafi verið sniðið að því sérstaklega. Rúmlega 9.000 gangandi vegfarendur létust í umferðarslysum í Bandaríkjunum hvort ár fyrir sig, 2007 og 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×