Skoðun

Allsnægtir landsins

Ása Björk Ólafsdóttir skrifar

Okkur er trúað fyrir fallegu og gjöfulu landi. Á sama tíma og mörg okkar óttast nánustu framtíð og völtu efnahagskerfi verður komið í jafnvægi, skulum við hugsa um það hvað okkur langar til að sjá gerast. Hverjar eru væntingar okkar?

Minn draumur er sá, að Íslendingar verði sjálfum sér nógir með mat. Matarkistan og gnægtarbrunnurinn Ísland er ekki óraunhæfur draumur. Til eru nokkrar leiðir. Um leið og tekin verður ákvörðun um að garðyrkjubændur fái raforku á stóriðjuverði, munum við sjá hraða þróun og mikla uppbyggingu í ylrækt. Fólk mun sjá framtíð í að reisa gróðurhús og hefja hvers konar ræktun grænmetis eða/og jafnvel ávaxta.

Langtímastörfin við ræktun eru svo mörg að ég hef ekki hugmyndaflug til að telja þau. Ótalin eru þá afleidd störf við þjónustu, pökkun, dreifingu og svo framvegis. Þessi einfalda aðgerð kemur þannig til með að stórauka eftirspurn eftir gleri og grindum í gróðurhúsin, það skapar störf. Einnig skapast störf við undirbúning og vinnu við uppsetningu húsanna.

Lífræn og hrein ræktun er sú ímynd sem Ísland á að hafa út á við. Mig dreymir um að við ræktum nóg fyrir innanlandsmarkað. Ekki einungis vegna þess að íslenskt grænmeti er fyrsta flokks, heldur einnig til þess að nota ekki dýrmætan gjaldeyri í nokkuð sem við getum verið sjálfbær um. Við framleiðum nóg af kjöti, eigum nægan fisk í hafinu, afbragðs mjólkurvöru og eigum að rækta meira grænmeti og einhverja ávexti. Það virðist erfiðara með kornið, en í byggræktun erum við komin vel í gang. Ræktun skóga breytir loftslaginu og því verðugt markmið að virkja enn frekar þann stórhug sem með mörgum býr.

Þetta er sú framtíðarsýn sem ég hef og að auki tel ég að sú vannýtta auðlind sem felst í lækningajurtum sé nokkuð sem beri að athuga gaumgæfilega. Þó ber sérstaklega að gæta þess að ganga ekki á villta stofna, en hugsanlega er þó hægt að rækta slíkar jurtir í gróðurhúsum í einhverjum mæli. Þannig náum við að nýta þann gnægtarbrunn sem landið okkar vissulega er.

Höfundur er héraðsprestur og skipar 6. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×