Viðskipti innlent

Straumur stefnir World Class vegna kennitöluflakks

Straumur mun leggja fram stefnu gegn líkamsræktarstöðinni World Class í dag eða í fyrramálið vegna kennitöluflakks á vegum World Class. Með því hafi skuld við Straum upp á einn milljarða kr. verið skilin eftir í gamla félaginu en allar eignir World Class settar yfir í nýtt félag.

Samkvæmt heimildum Fréttastofu mun Landsbankinn, sem er einn af stærstu kröfuhöfum World Class, hafa aðstoðað þau hjónin, Björn Leifsson og Hafdísi Jónsdóttur, við umrætt kennitöluflakk til þess að vernda hagsmuni síni. „Þarna er bankinn að vernda sína eigin hagsmuni á kostnað annarra," segir heimildarmaður Fréttastofu.

Til þess að auðvelda sér málsóknina hefur Straumur gripið til þess ráðs að yfirtaka kröfur annarra kröfuhafa á hendur World Class. Ekki er þó um að ræða að Straumur hafi keypt þessar kröfur heldur er um skiptisamning að ræða við önnur fjármálafyrirtæki. Þau láta af hendi sínar kröfur í World Class en fá í staðinn kröfur á aðra aðila.

Milljarðs kr. krafa Straums er frá þeim tíma þegar þau hjónin ákváðu að fara í útrás til Danmerkur með starfsemi sína. Sú útrás gekk ekki upp og töpuðust töluverðir fjármunir við að reyna að koma sér fyrir á danska líkamsræktarmarkaðinum.

"Björn Leifsson væri sterkefnaður maður í dag ef hann hefði sleppt þessu Danmerkurævintýri," segir heimildarmaður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×