Viðskipti innlent

Eigið fé bankanna gæti þurrkast út vegna málsóknar

Höskuldur Kári Schram skrifar

Eigið fé nýju bankanna þurrkast upp fallist dómstólar á þau rök að gengistryggð lán hafi verið ólögmæt. Bankarnir þurfa þá að afskrifa allt að 150 milljarða króna vegna fasteigna- og bílalána.

Nokkur prófmál eru nú í gangi á hendur bönkunum þar sem því er haldið fram að gengistryggð lán vegna fasteigna og bifreiðakaupa hafi verið ólögleg.

Mörg þúsund einstaklingar tóku gengistryggð lán en lánin hækkuð gríðarlega þegar krónan hrundi á síðasta ári.

Björn Þorri Viktorsson, lögmaður, sagði í samtali við fréttastofu í dag að fari svo að dómstólar fallist á þau rök að gengistryggð lán hafi verið ólögmæt þurfi bankarnir að færa lánin niður í upphaflegan höfuðstól.

Gengistryggð fasteigna og bílalán nema um 300 milljörðum króna miðað við núverandi gengi og eru þessi lán hluti af eignasöfnum bankanna. Þessi upphæð lækkar niður í 150 milljarða verði lánin dæmd ólögleg sem gerir það að verkum að eigið fé bankanna þurrkast upp.

Viðskiptaráðherra segir að gengið sé út frá því að lánin hafi verið lögleg.

„það verður tekið á niðurstöðunni þegar hún kemur en sem stendur þá er gert ráð fyrir því að þessi lán séu lögleg," segir Gylfi Magnússon.

Bankarnir hafi þó eitthvað svigrúm til að taka á sig slíkt tap.

„Það er væntanlega á pappírnum talsvert. Tap en það má kannski hafa það í huga að vegna þess hve illa margir lántakendur eru staddir þá hafa menn væntanlega gert ráð fyrir því að það yrðu veruleg afföll hvort eð er jafnvel þó að lánin teldust lögleg," segir Gylfi að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×