Innlent

Ísjakar fyrir utan Vestfirði - myndband

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar flug í fyrrakvöld yfir hafsvæðið á milli Íslands og Grænlands og sáust 13 ísjakar út af Vestfjörðum í eftirlitsbúnaði vélarinnar. Þeir ísjakar sem voru næst landi voru 77 sjómílur, eða tæplega 130 kílómetra, vestnorðvestan af Bjargi. Líklegt er að minni ísjakar séu á svæðinu sem geta verið varasamir skipum.

Árni Friðriksson, rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar, var á svæðinu þegar flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug fyrir svæðið. Flugvélin hafði samband við skipið og upplýsti um ísjaka á svæðinu. Ísjakinn sem sést lok myndbandsins er afar stór samanborið við rannsóknarskipið, en það er 70 metra langt og 14 metra breitt.

Frá því fyrir helgi hefur stjórnstöð Landhelgisgæslunnar borist nokkrar tilkynningar um hafís frá skipum á svæðinu. Ísjakar sem skip hafa séð undanfarna daga undan Vestfjörðum hafa ekki komið fram á gervitunglamyndum en geta engu að síður verið hættulegir skipum því einungis 1/10 af þeim er ofansjávar.

Fjólubláu punktarnir eru ísjakar. Mynd/Landhelgisgæslan
Fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar að stjórnstöð stofnunarinnar hafi í gær haft samband við siglingaumferðarmiðstöðina í Vardö í Norður Noregi. Stjórnstöðin bað um að olíuskipum á leið frá Rússlandi til Bandaríkjanna yrði eindregið vísað frá því að sigla um hafsvæðið milli Íslands og Grænlands vegna hafíss sem vart hefur orðið við á svæðinu. Þeim tilmælum var beint til skipa að sigla suðaustan við landið á leið til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×