Viðskipti innlent

Ár er liðið frá upphafi bankahrunsins á Íslandi

Sólveig Bergmann skrifar

Í dag er ár frá því ljóst varð að Glitnir stóð á brauðfótum. Hann varð fyrstur hinna íslensku banka til að verða þjóðnýttur en fall hans markar endalok íslensku útrásarinnar og upphaf þeirra efnhagsþrenginga sem þjóðin finnur á eigin skinni.

Þann tuttuguasta og níunda september var tilkynnt að ríkið myndi eignast 75 prósenta hlut í Glitni og greiða fyrir 84 milljarða sem teknir væru af gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar. Ástæðan var rekin til falls Lehman Brothers og lausafjárkreppu í heiminum. Þetta sagði Davíð Oddsson þáverandi Seðlabankastjóri á blaðamannafundi þann dag en stjórnarformaður Glitnis, Þorsteinn Már Baldvsinsson, fullyrti að Seðlabankinn hefði stillt forsvarsmönnum bankans upp við vegg.

Áhrifanna gætti víða, enda var Glitnir með rekstur í níu erlendum ríkjum. Fyrir ári voru Íslendingar einnig tengdir vel þekktum dönskum félögum og fall Glitnis og greiðslustöðvun Stoða, sem var stærsti hluthafi bankans, varð til þess að viðvörunarljós blikkuðu á fjármálamörkuðum og í stjórnarherbergjum í Danmörku. Hér heima höfðu þúsundir manna lagt ævisparnaðinn í hlutabréf í Glitni eða í hlutabréfasjóði sem höfðu fjárfest í bréfum í bankanum.

Atburðarrásin sem hófst með falli Glitnis varð þó lygilegri en flesta hafði órað fyrir og ráðamenn þjóðarinnar kepptust við að lægja öldur ótta og tortryggni. Þáverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, sagði að ekki væri búist við því að til samskonar aðgerða þyrfti að grípa gagnvart Kaupþingi og Landsbankanum. Yfirtakan á Glitni hefði verið tekin til þess að koma ró á fjármálamarkaðinn. Hann sagði einnig að ef vel gengi í rekstrinum myndi ríkið losa sig við hlutinn sem fyrst og vonaðist jafnfram til þess að ríkið geti haft af því einhvern arð.

Fáeinum dögur síðar féll Landsbankinn, Glitnir fór sömu leið og svo Kaupþing. Útrásin íslenska var liðin undir lok með geigvænlegum afleiðingum fyrir íslenska þjóð.

Ítarlega verður fjallað um upphaf bankahrunsins í kvöld að loknum fréttum Stöðvar 2 í þættinum Ísland í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×