Viðskipti innlent

Stjórnarformaður HB Granda fái 2,4 milljónir fyrir árið

Fyrir aðalfundi HB Granda þann 3. apríl verður lagt til að þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið ár verði 800.000 kr. Formaður stjórnarinnar taki þrefaldan hlut eða 2,4 milljónir kr.

Fjallað er um tillögur fyrir fundinn á heimasíðu HB Granda. Þar er greint frá arðgreiðslum til hluthafanna en þær hafa vakið miklar deilur.

Tillagan hljóðar svo: "Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 3. apríl 2009 samþykkir að greiddur verði 8% arður (0,08 kr. á hlut) vegna ársins 2008, alls að fjárhæð 135.7 milljón kr. Arðurinn verði greiddur 27. apríl 2009. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 3. apríl 2009 og arðleysisdagur því 6. apríl 2009. Arðsréttindadagur er 8. apríl 2009.

Ennfremur er tillaga um að aðalfundur veiti stjórn félagsins heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu. Heimild þessi stendur í 18 mánuði og takmarkast við að samanlögð kaup fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Kaupverð hluta skal vera hæst 15% yfir síðasta þekktu söluverði á First North markaðinum áður en kaup eru gerð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×