Viðskipti innlent

Yfirtaka á Exista í uppnámi

Stjórn Kaupþings mun á næstu dögum ákveða hvort að yfirtökutilboði Bakkabræðra á Exista verði tekið. Tilboðið gerir ráð fyrir að hluthafar fái 0,02 krónur fyrir hvern hlut. Rán segir hluthafi.

Í lok síðasta árs skráði BBR, félag í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona sig fyrir nýju hlutafé í Exista sem nam 50 milljörðum hluta. Exista var stærsti hluthafi Kaupþings en auk þess á félagið VÍS, Lífís, Lýsingu og Skipti sem er móðurfélag Símans. BBR hefur nú sent yfirtökutilboð til hlutahafa í Exista. Með undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu var ákveðið að kaupverðið sé 0,02 krónur á hvern hlut. Kaupþing á 10,4% í félaginu en stjórn bankans hafnaði samskonar yfirtökutilboði í desember. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings, segir að ákvörðun um hvort að gengið verði að tilboðinu verði tekin á allra næstu dögum.

Fréttastofa ræddi í dag við nokkra hluthafa sem eru mjög ósáttir við yfirtökutilboðið. Einn þeirra fjárfesti fyrir rúma eina milljón í félaginu yfir nokkurra mánaða tímabil. Honum eru boðnar 36.000 krónur fyrir sinn hlut. Hann segir þetta rán og að hann ætli ekki gefa hlutinn sinn. Hann vilji frekar tapa honum.

Ekki er þó víst að af yfirtökunni verði þar sem fjárhagsleg endurskipulagning á Exista er nú í gangi. Um 20 erlendir bankar, lífeyrissjóðir og íslenskar fjármálastofnanir sem eiga kröfur á félagið koma að þeirri vinnu. Ekki liggur fyrir hvenær þeirri henni verði lokið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×