Viðskipti innlent

Icelandair hefur áætlunarflug til Seattle í sumar

Icelandair, dótturfélag Icelandair Group, mun hefja beint áætlunarflug fjórum sinnum í viku milli Íslands og Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna þann 22. júlí næstkomandi.

 

Í frétt um málið frá Icelandair segir að með fluginu skapist viðskiptatækifæri sem gefst vegna breytinga á alþjóðamörkuðum.

 

Flugið fellur inn í leiðakerfi sem byggir á legu landsins í beinni flugleið milli Norður-Ameríku og Norður-Evrópu og það muni skapa gjaldeyristekjur, allt að eitt hundrað atvinnutækifæra og eflir ferðaþjónustuna

"Icelandair rekur öflugt leiðakerfi og velgengi þess byggir á stöðugri útsjónarsemi, þróun og aðhaldi," segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

„ Við brotthvarf SAS af markaðinum milli Skandinavíu og Seattle í sumar myndast tækifæri fyrir Icelandair, því vegna staðsetningar landsins getum við nýtt Boeing 757 þotur í flugið, en þær eru mun hagkvæmari en þær breiðþotur sem jafnan fljúga milli Seattle og Evrópu.

Með millilendingu hér á landi dreifast farþegar til og frá fjölmörgum Evrópuborgum, líkt og í öðru tengiflugi félagsins. Samkeppnishæfni Icelandair á leiðinni milli Seattle og Evrópu er því góð og við getum boðið 3-4 klst. styttri flugtíma en aðrir geta frá höfuðborgum Norðurlandanna og fleiri stöðum. Jafnframt erum við í samstarfi við Alaska Airlines, sem er stærsta flugfélagið í Seattle, og því bjóðum við samdægurs góðar áframtengingar til borga eins og Las Vegas, Los Angeles, San Francisco og fleiri."

Birkir segir ennfremur að þetta flug undirstriki styrk og sveigjanleika Icelandair. Með starfsemi á fjölmörgum mörkuðum í Evrópu og Norður-Ameríku heldur Icelandair uppi öflugum samgöngum milli Íslands og umheimsins jafnvel þó dragi mjög úr utanferðum Íslendinga tímabundið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×