Viðskipti innlent

Eimskip tekur upp einstaka tækni í bílaflota sinn

Eimskip innanlands hefur hafið samstarf við hátæknifyrirtækin ND á Íslandi og Controlant um innleiðingu á kælivöktun í bílaflotann sinn. Kælivöktunin sem slík er einstök á heimsvísu og Eimskip er fyrsta fyrirtækið sem tekur slíka vöktun upp í sinn bílaflota.

Í tilkynningu um málið segir að kælivöktunin er sameiginleg afurð fyrirtækjanna ND á Íslandi sem rekur flotastýringakerfið SAGAsystem og Controlant sem á dögunum hlaut nýsköpunarverðlaunin Gulleggið frá Innovit.

Kælivöktunin byggist upp á þráðlausum skynjurunum frá Controlant sem mæla hita- og rakastig í farmrými. Við þeim upplýsingum tekur ökuriti frá ND sem sendir mælingarnar í miðlægan gagnagrunn flotastýringarkerfisins SAGAsystem.

Í notendaviðmóti SAGAsystem geta starfsmenn Eimskips síðan fylgst með hitastigi í farmrými bílaflotans. Kerfið getur vaktað og látið vita ef hitastigið er of hátt eða lágt og því er mögulegt að grípa inn í ef hitastigið fer út fyrir viðmiðunarmörk. Þannig er mögulegt að tryggja rétt hitastig alla leið í flutningum.

Matvæladreifing hefur verið að aukast á vegum Eimskips innanlands. Með Kælivöktuninni er Eimskip að tryggja gæði í flutningum á matvælum, en það skiptir höfuðmáli að viðkvæm matvæli séu flutt við rétt hitastig. Með því að geta staðfest hitann í flutningaferlinu er Eimskip innanlands að skapa sér sérstöðu á flutningamarkaði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×