Viðskipti innlent

Ríkisskattstjóri skoðar hvort kvótahagnaði hafi verið skotið undan

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Ríkisskattstjóri skoðar nú hvort kvótahagnaði hafi verið komið fyrir í aflandsfélögum og notaður til fjárfestinga hér á landi. Þannig hafi fyrrum kvótaeigendur geta komist hjá því að greiða fjármagnstekjuskatt. Í þeim félögum sem um ræðir skipta lægstu upphæðirnar tvö til þrjú hundruð milljónum króna.

Ríkisskattstjóri hefur nú greint eignarhald á vel flestum þeirra 400 aflandsfélaga sem skattyfirvöld hafa til skoðunar. Eigendum þessara félaga hafa nú borist fyrirspurnir frá ríkisskattstjóra m.a. um tilgang þess að félögin voru stofnuð , hvort hlutabréf í íslenskum félögum hafi verið seld eða keypt í gegnum félögin auk þess sem eigendurnir eru beðnir um að leggja fram ársreikninga. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru fyrrverandi kvótaeigendur meðal þeirra sem hafa nú nýlega fengið fyrirspurn.

Um er að ræða nokkra einstaklinga sem seldu hlut sinn í útgerðum á árunum 2000 til 2002 og stofnuðu um leið félög í skattaskjólum. Upphæðirnar sem hafa verið lagðar inn í þessi félög skipta hundruðum milljóna en lægstu upphæðirnar eru á bilinu tvö til þrjú hundruð milljónir inni í einu félagi. Skoðun ríkisskattstjóra felst m.a. í því hvort að þessir einstaklingar hafi notað kvótagróðann til fjárfestinga hér á landi en gert það í gegnum aflandsfélögin og þannig komist hjá því að greiða skatt.

Á mannamáli þýðir þetta í rauninni að ríkisskattstjóri skoðar nú hvort að mennirnir sem græddu hundruði milljóna og upp í milljarða á sölu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hafi flutt gróðann út fyrir landsteinana og notað hann síðan til fjárfestinga hér á landi. Þannig hafi þeir komist hjá því að greiða fjármagnstekjuskatt á Íslandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×